Sport

Markvörður ÍA hættur

Skagamenn í Landsbankadeild karla í knattspyrnu hafa orðið fyrir því áfalli að missa lykilmann í upphafi móts en markvörðurinn Þórður Þórðarson er hættur. Ólafur Þórðarson þjálfari ÍA staðfesti það við visir.is í dag en Þórður þarf skyndilega að leggja hanskana á hilluna vegna veikinda. "Samvkæmt læknisráði þarf Þórður því miður að hætta. Hann verður ekki með á móti Val á morgun." sagði Ólafur. Hann segir ÍA eiga varamarkmenn til staðar en játti því að Bjarki Freyr Guðmundsson, markvörður hjá Stjörnunni í Garðabæ, áður hjá Keflavík og KR væri til skoðunar hjá félagi en hann hefur verið í námi í Bandaríkjunum. Bjarki sem er fæddur 1976 hóf feril sinn reyndar hjá ÍA1995 áður en hann fór til Keflavíkur haustið það ár. Þórður spilaði alla leiki liðsins sl. sumar og var valinn besti leikmaður liðsins. Hann framlengdi samning sinn við ÍA til 2 ára í nóvember sl. Hann er 32 ára og uppalinn Skagamaður, spilaði á Skaganum allt til ársins 1999 er hann hélt til Svíþjóðar og spilaði með Norrköping. Tveim árum síðar kom hann aftur heim og spilaði eitt tímabil með Val og eitt með KA áður en hann snéri aftur á Skagann. Það kemur svo í ljós á morgun sunnudag hver stendur á milli stanganna hjá ÍA á móti Val í 2. umferð mótsins. Skagamenn unnu nýliða Þróttar í 1. umferðinni, 1-0 en þetta var í fyrsta sinn í þó nokkur ár sem Skagamenn vinna sigur í 1. umferð Íslandsmótsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×