Sport

Jol í sjöunda himni

Leikmenn Tottenham fóru á kostum þegar þeir tóku á móti Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni á White Hart Lane í gær. Tottenham berst hatrammlega fyrir sjöunda sætinu í deildinni, sætinu sem gefur þátttökurétt í Evrópukeppni félagsliða og þeim tókst að ná því sæti með stórsigri, 5-1. Tottenham komst upp fyrir Middlesbrough á markatölu en þessi tvö lið mætast á Árbakkaleikvangi, heimavelli Middlesbrough um næstu helgi. Það var strax ljóst hvert stefndi því Frakkinn Freddie Kanoute og varnarmaðurinn Ledley King komu Tottenham í 2-0 strax eftir tuttugu mínútur. Kanoute bætti síðan öðru marki sínu við áður en Gareth Barry minnkaði muninn fyrir Aston Villa í 3-1 rétt undir lok fyrri hálfleiks. Andy Reid og Stephen Kelly bættu síðan við mörkum fyrir Tottenham í síðari hálfleik og nokkuð ljóst að hollenski knattspyrnustjórinn Martin Jol er á fínu róli með liðið. "Mér fannst þetta vera ein besta frammistaða liðsins á þessu tímabili. Við eigum samt harða baráttu fyrir höndum um sjöunda sætið. Það væri hinsvegar stórkostlegt fyrir félagið að komast í Evrópukeppnina á næsta ári," sagði Jol sem hefur snúið gæfu liðsins á rétta braut eftir að hann tók við af Frakkanum Jacques Santini fyrr í vetur. David O'Leary, knattspyrnustjóri Aston Villa, var svekktur út í sína menn og sagði að léleg dekkning í föstum leikatriðum hefði gert útslagið. "Ég get ekki ásakað mína menn því þeir hafa gefið allt sem þeir eiga annað árið í röð. Við erum með lítinn hóp og ég er stoltur af því sem við höfum afrekað. Við misstum einbeitinguna í dag í föstum leikatriðum en það er ekki spurning að betra liðið vann Ég er samt ekki búinn að afskrifa Evrópusæti - það eru enn sex stig í pottinum. Leikmenn Charlton eru heillum horfnir þessa dagana og þeir fengu að kynnast refsivendi leikmanna Manchester United í gær. United fór með sigur af hólmi, 4-0, og sáu tvo mörk í hvorum hálfleik um að klára Lundúnaliðið. Paul Scholes og Darren Fletcher skotuðu í fyrri hálfleik og þeir Alan Smith og Wayne Rooney skoruðu í þeim síðari. Charlton, sem lék án Hermanns Hreiðarssonar, hefur ekki unnið leik síðan 16. mars og siglir lygnan sjó um miðja deild en Manchester United berst hatrammri baráttu við Arsenal um annað sætið í deildinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×