Erlent

Skutu flaug í áttina að Japan

Norðurkóreski herinn skaut skammdraugri skotflaug í áttina að Japan í morgun, líkast til í tilraunaskyni. Óvíst er hvort að kjarnaoddar hefðu getað verið um borð. Talið er að skotflauginni hafi verið skotið frá austurstönd Norður-Kóreu og að hún hafi lent í Japanshafi. Bandaríkjaher greindi Japönum frá þessu og reyna japönsk yfirvöld nú að staðfesta fregnirnar. Óvíst er nákvæmlega hvers kyns skotflaug var skotið en frá því í mars hefur legið fyrir að Norður-Kóreustjórn léti vinna að neðanjarðartilraunasprengingu á kjarnorkusprengju og er búist við því að af henni verði fyrir júnílok. Stjórnmálaskýrendur á svæðinu hafa áður sagt að Norður-Kóreumenn yrðu að gera tilraunir á kjarnorkuflaugum sínum til að ganga úr skugga um að rándýr þróun vopnanna hefði skilað tilsettum árangri. Þeir töldu hins vegar þangað til í nótt að pólitískar afleiðingar slíkra tilrauna yrðu svo alvarlegar að Norður-Kóreustjórn tæki ekki áhættuna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×