Sport

Hannes í sviðsljósinu í Noregi

Landsliðsmaðurinn Hannes Sigurðsson, leikmaður Viking, hefur verið mikið í fréttum í Noregi í vikunni. Ástæðan er sú að viðskiptum hans og Frode Kippe, leikmanns Lilleström, um síðustu helgi lauk með miklum látum þegar olnbogi Hannesar endaði í andliti Kippe sem kjálka- og tvíkinnbeinsbrotnaði. Menn í Noregi hafa skipst í tvær fylkingar um hvort olnbogaskot Hannesar hafi verið viljandi eða óviljandi. Hannes sagði í samtali við Fréttablaðið í gær hafa hreinan skjöld í málinu. "Maður er mjög vinsæll þessa dagana," sagði Hannes léttur á því. "Ég skil samt ekki af hverju menn eru að gera svona mikið mál úr þessu. Menn lyfta olnbogum hér í öllum leikjum og einvígjum. Okkar einvígi var ekkert öðruvísi að öðru leyti en því að hann slasaðist illa en það var algjör óheppni. Þetta var alls ekki viljandi. Ég vissi ekki einu sinni hvar hann var þegar ég fer upp í boltann." Atvikið átti sér stað þegar hálftími var eftir af leiknum en mikið hafði gengið á hjá Hannesi og Kippe fyrsta klukkutíma leiksins. "Ég fékk heilahristing þökk sé honum fyrr í leiknum þegar hann keyrði olnbogann í hnakkann á mér. Ég fékk líka skurð í því einvígi," sagði Hannes sem er ekki enn farinn að æfa á ný. Hann hefur verið með höfuðverk út af heilahristingnum og læknirinn vill að hann hvíli fram að helgi. Hannes var tekinn af velli í kjölfarið enda hljóp mikill hiti í leikmenn þegar þeir sáu blóðið á Kippe. Hannes hefur mátt þola mikla gagnrýni á köflum og til að mynda vill Bard Borgersen, miðvörður Start, fá Hannes í tveggja ára bann en hann þarf einmitt að stöðva Hannes um helgina þegar Viking mætir Start. "Hann á framtíð fyrir sér sem skemmtikraftur þegar ferlinum lýkur," sagði Hannes léttur en hann lætur hasarinn ekki koma sér úr jafnvægi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×