Innlent

Hátt í 10 metra langur hnúfubakur

Hvalur sást svamla um í Reykjavíkurhöfn í morgun. Reyndist þar vera hnúfubakur, átta til tíu metra langur að sögn sjónarvotta. Einar Örn Einarsson, skipstjóri á Hvalaskoðunarbátnum Eldingu, segir að báturinn hafi verið á leið út úr höfninni í morgun þegar einn hafnarvörður hafi kallað í þá og tilkynnt þeim um hnúfubak við Grandabryggjuna. Einar segist fyrst varla hafa trúað þessu en þegar þeir komu á staðinn blasti við þeim nokkuð stálpaður hnúfubakur. Að sögn skipstjórans var hvalurinn greinilega að éta inni í höfninni. Einar segir hvalinn enn hafa verið í höfninni síðast þegar hann frétti af honum en virtist á útleið. Einar segist aldrei hafa séð hval áður í Reykjavíkurhöfn. Dæmi þess að hvalir villist inn í hafnir þekkjast þó á Akranesi og í Keflavík svo dæmi séu tekin, en að sögn Einars eru það miklu einfaldari hafnir að fara inn í fyrir svona dýr.     Gísli Víkingsson, líffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, segir hnúfubak af þessari lengd vera kálf, líklega nývaninn undan, en fullvaxnir hnúfubakar verða allt að fimmtán metra langir og vega 40-50 tonn. Hnúfubakur er ein þeirra hvalategunda sem var ofveidd um aldamótin þarsíðustu og gekk afar hægt að endurreisa stofninn. Hnúfubakurinn var sárasjáldgæfur þar til um 1970 þegar stofninn tók skyndilegan kipp og er nú orðinn um 14 þúsund dýr. Hnúfubakar eru farhvalir og fara suður á vetrum en líffræðingar hafa orðið varir við að þeir hafi vetursetu í auknum mæli, aðallega á loðnumiðum. Gísli telur hnúfubakskálfinn bara hafa verið að villast, fyrst honum tókst að komast út úr höfninni af eigin rammleik, en andarnefja varð fræg fyrir nokkrum árum fyrir að renna sér upp í slippinn í höfninni aftur og aftur og þurftu björgunarsveitir að draga hana út í hvert sinn. Myndir af hvalnum verða sýndar í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×