Erlent

Nýr formaður danskra jafnaðarmanna

Hin 38 ára gamla Helle Thorning-Schmidt sigraði í formannskjöri í danska Jafnaðarmannaflokknum sem leitt var til lykta í gær. Hún er fyrst kvenna til að gegna formennsku í flokknum í 134 ára sögu hans. Í þakkarræðu sinni í gærkvöld sór hún þess eið að fella Anders Fogh Rasmussen og flokk hans, hægriflokkinn Venstre, úr ríkisstjórn í næstu þingkosningum sem haldnar verða eigi síðar en árið 2009. Í póst- og netkosningum meðal hinna 52.000 manna sem skráðir eru í flokkinn hlaut Thorning-Schmidt 53 prósent greiddra atkvæða en keppinautur hennar, Frank Jensen, 47 prósent. Thorning-Schmidt er álitin aðhyllast aðeins vinstrisinnaðri stefnu en Frank Jensen. Hún sat um skeið á Evrópuþinginu en var fyrst kjörin á danska þjóðþingið nú í vetur. Nýbakaði formaðurinn sendi fráfarandi flokksforystu, sem leiddi flokkinn í mesta kosningaósigur í sögu hans í þingkosningunum í febrúar, sneið er hún sagði: "Nú kveðjum við allar innanflokkserjur. Það tekst í þetta sinn."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×