Erlent

Fækkun herliðs boðuð

Bandarísk stjórnvöld vonast til að geta kallað allt að þriðjungi herliðs síns heim frá Írak snemma á næsta ári. Ástæðan er að sögn bandaríska dagblaðsins The New York Times batnandi öryggisástand í landinu og styrking íraskra lögreglu- og hersveita. Á síðustu vikum hefur árásum á erlenda hermenn í Írak fækkað verulega. Í aðdraganda kosninganna 30. janúar voru slíkar árásir um 140 á dag en nú eru þær 30-40. 36 bandarískir hermenn féllu í skæruárásum í síðasta mánuði en svo fáir hermenn hafa ekki týnt lífi síðan í febrúar 2004. Bandarískir og íraskir ráðamenn eru sammála um að janúarkosningarnar og orrustan um Fallujah í nóvember séu orsök batnandi ástands, en Fallujah var helsta vígi uppreisnarmanna. Á sama tíma hefur gengið vel að byggja upp íraskar öryggissveitir. Að sögn bandaríska varnarmálaráðuneytisins hafa 152.000 Írakar verið þjálfaðir í hermennsku og löggæslustörfum undanfarin misseri. Af þessum sökum vonast stjórnvöld í Washington til að snemma á næsta ári verði fjöldi bandarískra hermanna í Írak 105.000 í samanburði við 142.000 nú, það er að segja ef ástandið heldur áfram að batna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×