Erlent

Dönsk ungmenni þjást vegna SMS

Danskir unglingar þjást í unnvörpum af sinaskeiðabólgu og verkjum í höndum vegna mikilla SMS-sendinga. . Á síðasta ári sendu Danir sex og hálfa milljón SMS-skilaboða, langflestir sendendur voru á aldrinum 8-25 ára. Á heilsugæslustöð í Karlebo kemur mánaðarlega hópur drengja og stúlkna sem kvarta yfir verkjum í úlnlið og fingrum. Á stöðinni eru meðhöndluð börn sem háð eru farsímum og tölvuleikjum. Talsmenn stöðvarinnar segir að þessir krakkar hafi venjulegast sent milli 1000 og 4000 SMS í mánuðinum og þjáist þess vegna m.a. af sinaskeiðabólgu eftir að hafa ýtt ótal sinnum á takkana á síma sínum. Michael Rasmussen, yfirmaður stöðvarinnar, segir í dagblaðinu Berlingske Tidende í dag að fjöldi unglinga eyði mörgum klukkutímum á dag í að senda og lesa SMS. Yfirleitt séu krakkarnir að senda um 60 skilaboð á dag, og ef það tekur tvær mínútur að senda og lesa ein skilaboð sé auðvelt að reikna út að í það fara um tvær klukkustundir. Það er tími sem einhversstaðar þarf að taka, til dæmis af þeim tíma sem á að fara í heimanám, uppbyggjandi áhugamál og samveru með fjölskyldunni, segir Rasmussen. Félagsfræðingurinn Anne Birk Frederiksen segir að SMS-skilaboð séu orðin það stór þáttur af unglingamenningu að unga fólkið noti þenna samskiptamáta annars vegar til að missa ekki af neinu, og hins vegar að skapa öryggi - sendi þau ekki SMS eigi þau á hættu að detta út úr hópnum, segir Frederiksen.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×