Lífið

Síðasta atvinnuflug Arngríms

Eftir ríflega hálfrar aldar atvinnuflugmannsferil tók Arngrímur Jóhannsson á loft í síðasta sinn á Kúbu í nótt og í morgun lenti hann í Keflavík. Einhver þekktasti flugstjóri landsins stýrir ekki himinfleyjum fylltum farþegum aftur. Arngrímur Jóhansson á nítján þúsund flugstundir að baki og nú er hann sestur í helgan stein. Það þýðir þó ekki að hann sé hættur öllum afskiptum af flugi. Arngrímur segist eiga nokkur leikföng sem hann ætli að dunda sér við. Þá ætli hann að skoða landið betur og hann hyggist taka fyrsta sumarið í að fljúga um landið í rólegheitum. Flugfélagið Atlanta var, eins og frægt er, stofnað við eldhúsborðið. Tæpum tuttugu árum síðar er félagið hið stærsta sinnar tegundar í heiminum með bækisstöðvar um víða veröld. Er Atlanta það sem stendur hæst þegar Arngrímur lítur yfir feril sinn eða eitthvað allt annað? Arngrímur segist ekki geta sagt að neitt standi upp úr. Þetta sé bara vinna sem gengið sé að að morgni og þakkað sé fyrir að komast í gegnum daginn. Arngrímur segir að auðvitað hafi verið stórar sveiflur í starfinu en þær skynji menn eftir á en ekki fyrir fram. Hann hafi oft haft stein í maganum í tengslum við rekstur Atlanta, en reksturinn hafi ekki verið bein braut og slétt. Hann segist bara þakka fyrir að muna ekki eftir neinu sem standi upp úr. Aðspurður um eftirminnileg eða æsileg atvik sem séu ofarlega í minni segir Arngrímur að flugheimurinn sé ekki eins feiknarlega ævintýralegur eins og menn haldi. Þetta sé vinna og hann hafi sagt það áður að það eina sem hann geti gert sé að láta fólk vinna fyrir sig og taka svo gloríuna sjálfur. Spurður hvort hann myndi velja flugið ef hann stæði í dag frammi fyrir því að kjósa sér starfsvettvang segir Arngrímur að hann gæti alveg hugsað sér að halda áfram að fljúga. Þetta sé góður heimur og gott starf.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.