Fastir pennar

Kolefnahlutleysi - hvað er nú það?

Ásýnd höfuðborgarsvæðisins hefur tekið stakkaskiptum á síðustu áratugum, þótt ekki sé litið nema 20-30 ár til baka. Breytingarnar eru margþættar og snúa að samgöngukerfi, húsbyggingum, útþenslu og svo mætti lengi telja. Það er alltaf erfitt að spá, sérstaklega um framtíðina og sjálfsagt hefðu forverar okkar átt erfitt með að sjá fyrir byggðaþróun landsins og vöxt og breytingar höfuðborgarinnar. Sumir hefðu kannski átt erfiðast með að sjá fyrir þann vöxt sem orðið hefur á skógi í borginni. Fyrir þrjátíu árum voru tré ekki sérlega áberandi þegar litið var yfir borgina en nú hafa þau vaxið húsum yfir höfuð víða. Auk garðtrjáa, sem teygja sig stöðugt, bæði hærra til himins og víðar um, hafa íbúar höfðuborgarsvæðisins plantað fjölda trjáa á hverju sumri í reitum sem þeir hafa komið sér upp utan þéttbýlisins. Sjálfsagt má tala þar um tugþúsundir plantna á ári hverju ef allt er talið. Heiðmörkin hefur vaxið og gróið og í Esjuhlíðum er vaxinn upp myndarlegur skógur svo nokkuð sé nefnt. Sömu þróun má reyndar sjá um allt land og ástæður einkum tvíþættar. Annars vegar dugnaður frumkvöðlanna og í framhaldi af því sívaxandi áhugi fólks fyrir skógrækt og hins vegar hagstætt tíðarfar síðustu ára, mildir vetur og hlý sumur. Hitt er svo annað mál að sveitarfélög víða um land mættu standa sig betur í þessum málaflokki. En hvað er svo fengið með allri þessari skógrækt og eftir hverju er fólk að sækjast? - Flestum þykir væntanlega skógur fallegur og skógi vaxið land fallegra en skóglaust, a.m.k. víða. Þá er óumdeilt að skógur veitir skjól, bæði fólki og öðrum gróðri og laðar til sín fjölbreyttara fuglalíf. En ótalið er þó það sem æ fleiri beina nú sjónum sínum að. Nú er nefnilega almennt talið að skógrækt og aukin notkun skógarafurða í stað orkufrekari afurða, svo sem áls, stáls og steypu, geti unnið gegn gróðurhúsaáhrifum. Flestir gera sér orðið grein fyrir því að íbúar jarðarinnar ógna tilveru sinni með mengun, gróðurhúsaáhrif virðast greinilegri með hverju árinu sem líður og veðurfarsbreytingar eru orðnar umtalsverðar. Þá þarf að huga að því að snúa vörn í sókn. Ein leiðin er að planta trjám, eitthvað sem margir eru að gera nú þegar og enn fleiri hafa hug á. Því hefur verið slegið fram að til að bæta fyrir kolefnisnotkun einnar fjölskyldubifreiðar þurfi að planta í u.þ.b. einn til tvo hektara lands. Aðeins þarf að planta einu sinni og þar með hefur fjölskylda í raun bætt fyrir þá mengun sem bifreiðarnotkun hennar veldur - tryggt ákveðið "kolefnahlutleysi" eins og það hefur verið kallað. Einn bíll er þó auðvitað bara hluti af mengun hvers heimilis. Vaxandi gasnotkun við eldamennsku er til dæmis mengunarvaldandi, sorpið sem til fellur, ekki síst ef það er ekki flokkað með réttum hætti og svo mætti lengi telja. Það hefur verið reiknað út að hver Íslendingur þurfi við núverandi aðstæður að rækta skóg á tæpum fjórum hekturum lands til að vera kolefnishlutlaus alla sína ævi. Mörg fyrirtæki hafa lagt sig fram um að styrkja skógræktarfélög og bæta þannig fyrir kolefnamengun sína og nú er að fara af stað verkefni á vegum Skógræktarfélags Reykjavíkur þar sem fyrsta fyrirtækið á Íslandi stefnir að kolefnahlutleysi. Þar verður skoðað sérstaklega hversu mikilli mengun þetta fyrirtæki veldur og hvað þarf að planta mörgum trjám til ná kolefnahlutleysi. Þetta geta væntanlega fleiri fyrirtæki gert, sem og einstaklingar, því þótt ekki hafi allir aðgang að skógræktarlandi er víða um land hægt að fá skika til skógræktar á vegum skógræktarfélaganna, jafnvel endurgjaldslaust Er þá hægt að "bæta fyrir" alla þessa mengun með trjárækt? Auðvitað er málið ekki svo einfalt. Við getum ekki bara plantað fleiri trjám og þar með aukið mengun á okkar vegum með góðri samvisku. En við getum dregið úr áhrifum þeirrar mengunar sem við völdum nú þegar eða öllu heldur unnið á móti henni með skógrækt. Nokkrar vefsíður bjóða fólki nú þegar að reikna út í sérstöku forriti hvað þarf að planta mörgum trjám til að bæta fyrir mengun heimilisins og setja þá inn ýmsa þætti í rekstrinum. Benda má á ru.is/co2 og futureforests.com. En skógrækt dregur þó ekki úr þeirri ábyrgð okkar að minnka eins og kostur er og vinna gegn allri mengun því ekki megum við gleyma þeim alkunnu sannindum að við eigum ekki jörðina, við höfum hana aðeins að láni og okkur ber skylda til að láta hana ganga til afkomenda okkar í eins góðu ástandi og kostur er, helst betra en við tókum við henni. Við þekkjum nú betur afleiðingar gjörða okkar en forfeður okkar gerðu og það eykur ábyrgð okkar.





×