Erlent

Óvíst hverjir stóðu að tilræði

Sprengja sprakk nærri bifreið Ibrahims Rugova, forseta Kosovo, í Pristina, höfuðborg landsins, í morgun. Bíll forsetans skemmdist í árásinni og rúður í nærliggjandi húsum splundruðust en engan sakaði. Ekki er enn vitað hverjir stóðu fyrir tilræðinu en þetta er ekki í fyrsta sinn sem reynt er að ráða Rugova af dögum. Rugova var leiðtogi Kosovo-Albana í byrjun tíunda áratugarins en var andvígur vopnuðum átökum og hryðjuverkum í baráttunni við Serba um yfirráð yfir Kosovo. Forsetinn var á leið á fund með Javier Solana, yfirmanni utanríkismála Evrópusambandsins, þegar sprengjan sprakk. Rugova ætlaði þar að ræða myndun nýrrar ríkisstjórnar eftir að Ramush Haradinaj, forsætisráðherra Kosovo, sagði af sér til að mæta fyrir stríðsglæpadómstólinn í Haag. Sameinuðu þjóðirnar stjórna enn Kosovo, en landið er formlega hluti af Serbíu-Svartfjallalandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×