Erlent

Blair í pólitískum forarpytti

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, er lentur í pólitískum forarpytti og virðist ekki ætla að geta komið umdeildu frumvarpi sínu um hertar aðgerðir gegn hryðjuverkum í gegnum breska þingið. Málið þykir sýna svart á hvítu að kosningabaráttan í Bretlandi er nú hafin fyrir alvöru. Breska ríkisstjórnin hefur nú í marga daga reynt að ná í gegn frumvarpi sem snýst um varnir gegn hryðjuverkum. Illa gengur enda er frumvarpið afar umdeilt bæði innan Verkamannaflokksins sem utan. Málið snýst einfaldlega um þetta: Ef ekki eru fyrir hendi nægjanleg sönnunargögn til að ákæra menn sem eru grunaðir um einhvers konar tengsl við hryðjuverkasamtök, hvað, ef eitthvað, má þá gera við þá? Nýja frumvarpið heimilar nefnilega yfirvöldum að takmarka það hverja þessir menn hitta eða ræða við í síma eða í tölvupósti. Þá yrði einnig heimilt að hneppa þá í stofufangelsi á eigin heimili. Í þessari umræðu allri kristallast sú grundvallardeila sem upp er komin eftir hryðjuverkaárásirnar í Bandaríkjunum þann 11. september, það er hversu mikið stjórnvöld geta gengið á réttindi og frelsi almennings í þeim tilgangi að tryggja hugsanlegt öryggi ríkisins og þjóðarinnar allrar. Tony Blair sjálfur hefur umsnúist í afstöðu sinni því í upphafi stjórnmálaferils síns var hann mikill talsmaður lýðréttinda. Nú bregður hins vegar svo við að öryggismálin eru komin á oddinn hjá honum og hann segir að öryggis- og varnarmál verði einmitt eitt af helstu kosningamálunum í Bretlandi í vor þegar gengið verður til þingkosninga. Tíu menn sem eru grunaðir um einhvers konar tengsl við al-Qaida samtökin eru nú í haldi í bresku fangelsi. Núverandi lög gegn hryðjuverkum, sem sett voru tímabundið eftir 11. september, heimila að þeim sé haldið án ákæru. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur reyndar úrskurðað að þessi lög brjóti gegn almennum mannréttindum og þau falla líka úr gildi nú um helgina. Ef ekki verður búið að samþykkja nýja frumvarpið gæti svo farið að stjórnvöld yrðu að láta mennina lausa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×