Erlent

Ísraelsríki studdi landtöku

Rannsókn á því hvernig staðið var að stofnun alls um 105 landtökubyggða gyðinga á Vesturbakkanum leiddi í ljós að ísraelsk stjórnvöld voru viðriðin landtökuna með margvíslegum hætti. Í niðurstöðu rannsóknarinnar, sem gerð var með stuðningi Ísraelsstjórnar, er mælt með því að saksóknarar íhugi að taka til rannsóknar þátt sumra þeirra sem komið hefðu við þessa sögu. Talia Sasson, fyrrverandi ríkissaksóknari Ísraels, stýrði rannsókninni, en hún kynnti helstu niðurstöðurnar á blaðamannafundi í Jerúsalem. Sasson sagði "róttæk skref" nauðsynleg til að bæta úr og vernda stoðir ísraelsks lýðræðis. Í skýrslunni er lýst leynilegu samráði og samstarfi hinna ýmsu ráðuneyta og opinberu stofnana um að koma fé og öðrum stuðningi til landtökumanna. Ísraelskir landtökumenn hófu fyrir rúmum áratug að reisa nýjar gyðingabyggðir á Vesturbakkanum, með það fyrir augum að rjúfa landfræðilega heild palestínska yfirráðasvæðisins og hindra stofnun sjálfstæðs Palestínuríkis. "Jafn alvarleg lögbrot af hálfu svo margra opinberra aðila eru ekki til annars fallin en að grafa undan lýðræðislegu stjórnarfari í Ísrael og verðskuldar að vera fordæmt," sagði Sasson. Sasson lét ógert að benda á nafngreinda ráðamenn í þessu sambandi. Spurð sérstaklega um hlutverk Ariels Sharon forsætisráðherra, sem á sínum tíma var einn helsti formælandi landtökunnar, vék hún sér undan að svara og sagði skýrsluna ekki fjalla um ábyrgð nafngreindra einstaklinga. Sem utanríkisráðherra hafði Sharon árið 1998 hvatt landtökumenn til að reisa nýjar byggðir á hæðum Vesturbakkans. Mest varð gróskan í landtökunni eftir að hann varð forsætisráðherra árið 2001. Ísraelsstjórn tekur skýrsluna til umræðu á sunnudag og talsmenn Sharons sögðu hann ekki myndu ákveða fyrr en þá hvernig bregðast skyldi við henni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×