Erlent

Leiðtogi Kosovo-Albana til Haag

Forsætisráðherra Kosovo-Albana, Ramush Haradinaj, sagði af sér í gær eftir að honum var birt ákæra fyrir meinta stríðsglæpi. Í ákærunni, sem Stríðsglæpadómstóll Sameinuðu þjóðanna í Haag gaf út, er Haradinaj sakaður um að hafa átt þátt í voðaverkum í stríði Kosovo-Albana við Serba 1998-1999, en á þeim tíma var hann hernaðarlegur leiðtogi Frelsishers Kosovo, uppreisnarhreyfingar Kosovo-Albana. Haradinaj lýsti því yfir í gær að hann myndi gefa sig fram við réttinn í Haag í dag. Klofningur milli þjóðernishópa er enn mjög djúpstæður í Kosovo, sex árum eftir að stríðinu þar lauk. Ákvörðunin um að ákæra Haradinaj er álitinn mikilvægur liður í tilraunum Sameinuðu þjóðanna, sem enn fara með yfirstjórn Kosovo, til að græða sárin eftir stríðið. Kosovo-Albanar líta flestir á Haradinaj sem hetju en Kosovo-Serbar hata hann. Að svo komnu máli gáfu hvorki Haradinaj né fulltrúar dómstólsins nánar upp hver ákæruatriðin væru. Søren Jessen-Petersen, æðsti fulltrúi SÞ í Kosovo, fagnaði ákvörðun Haradinajs en sagði að brotthvarf hans myndi "skilja eftir stórt skarð" í stjórnmálaferlinu þar. Hann hvatti alla hlutaðeigandi til stillingar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×