Erlent

Enn er mótmælt í Beirút

Hundruð manna héldu áfram mótmælum í Beirút í gær, degi eftir að Omar Karami forsætisráðherra baðst lausnar fyrir ríkisstjórn sína. Mannfjöldinn krafðist þess að þeir 15.000 sýrlensku hermenn sem enn eru í landinu hefðu sig þaðan á brott og að Sýrlendingar hættu afskiptum af innanríkismálum Líbanons. Á meðan situr stjórnarandstaðan á rökstólum og ræðir stöðuna. Leiðtogar hennar hafa krafist þess að hlutlaus bráðabirgðastjórn verði mynduð sem skipuleggja eigi þingkosningar í vor og rannsaka morðið á Rafik Hariri, fyrrverandi forsætisráðherra. Sýrlendingar eru undir auknum alþjóðlegum þrýstingi um að draga herlið sitt í Líbanon til baka. Condoleezza Rice og Michel Barnier, utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Frakklands, hvöttu þá til þess arna á blaðamannafundi í Lundúnum í gær. Forseti landsins, Emile Lahoud, hefur fengið sinn skerf af gagnrýninni en hann mun á næstu dögum ráðfæra sig við leiðtoga þjóðarbrotanna í landinu og skipa í framhaldi af því nýjan forsætisráðherra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×