Lífið

Ganga í hjónaband 8. apríl

Karl Bretaprins mun kvænast ástkonu sinni til margra ára, Camillu Parker Bowles, áttunda apríl næstkomandi. Elísabet drottning og Filippus prins hafa þegar sent parinu hamingjuóskir. Camilla Parker Bowles varð ástkona Karls langt á undan Díönu meðan hún var sjálf gift. Eins og frægt er orðið héldu þau sambandi sínu eftir að Karl og Díana giftust. Díana sagði sjálf í sjónvarpsviðtali að það væri dálítið erfitt að viðhalda hjónabandi ef þrír væru í því. Hún bar að vonum ekki hlýjan hug til Camillu og kallaði hana Rottweiler-tíkina. Fyrst eftir lát Díönu lét Camilla lítið fyrir sér fara en smám saman hefur hún verið meira og meira með krónprinsinum og deilir hún með honum Clarence-húsi í Lundúnum fyrir opnum tjöldum. Þau Karl og Camilla eiga miklu betur saman en nokkru sinni Karl og Díana. Þau eru á líkum aldri og hafa sömu áhugamál. Karl er 56 ára gamall en Camilla 58. Þau eru bæði útivistar- og hestafólk en Díana kunni betur við sig í samkvæmislífinu. Það hefur verið sagt að Karl hafi þurft að kvænast Díönu til þess eins að eignast erfingja. Bretar munu líklega skiptast í tvær fylkingar við þessi tíðindi. Sumir munu óska þeim til hamingju en aðrir hneykslast. Alla vega er ljóst að bresku slúðurblöðin þurfa ekki að kvíða gúrkutíð næstu vikurnar. Brúðkaup þeirra Karls og Camillu verður í Windsor-kastala en ekki Sankti Páls dómkirkjunni eins og brúðkaup þeirra Karls og Díönu. Gera má því skóna að athöfnin verði nokkuð látlausari.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.