Erlent

Skotbardagar flestar nætur

Tóbakssmygl frá Rússlandi hefur aukist verulega eftir að Litháen varð aðili að Evrópusambandinu og er nú svo komið að flestar nætur kemur til skotbardaga milli tollvarða og smyglara. Smyglarar reyna í auknum mæli að smygla ódýrum eftirlíkingum vestrænna tóbakstegunda á borð við Marlboro og Camel til Litháens og þaðan áfram til annarra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Yfirvöld reyna að sporna við smygli með tíðum eftirlitsferðum. Þyrlur fljúga yfir og landamæraverðir með nætursjónauka og vopnaðir hríðskotarifflum fara í eftirlitsferðir til að hafa uppi á smyglurum sem notast við hraðbáta og köfunarbúnað til að smygla varningi yfir landamærin. "Ástandið hefur versnað hér eftir því sem verðlag hefur hækkað í Litháen, sagði Genadijus Kuznecovas, yfirmaður landamæravörslunnar í Pagegiai. "Smyglið hefur orðið enn ábatasamara eftir aðild Litháens að Evrópusambandinu," sagði hann og bætti við. "Við ráðum aldrei niðurlögum þeirra að fullu en það er full ástæða til að reyna okkar besta."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×