Erlent

Reykingabann á Kúbu

Eitt af höfuðvígjum reykingamanna er nú fallið. Frá og með deginum í dag er bannað að reykja á ýmsum opinberum stöðum á Kúbu auk þess sem lagt hefur verið blátt bann við sígarettusjálfsölum og sölu tóbaks til ungmenna. Búðir sem eru í innan við eitt hundrað metra radíus frá skólum mega ennfremur ekki selja tóbak og þeir sem starfa við skóla og heilsugæslu verða að gjöra svo vel að halda sig frá tóbakinu. Þá er nú bannað að reykja á veitingahúsum, í mötuneytum, rútum og leigubílum á Kúbu. Ljóst er að margir þurfa að breyta lífsmynstri sínu frá og með deginum í dag því að kannanir benda til þess að fjórir af hverjum tíu á Kúbu reyki annað hvort sígarettur eða vindla reglulega.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×