Innlent

Sambandslaust í hættuástandi

Það er ekki í valdi Símans að koma í veg fyrir snjóflóð, að sögn Evu Magnúsdóttur, upplýsingafulltrúa fyrirtækisins. Þetta kom fram í svari Símans við fyrirspurn Ómars M. Jónssonar, bæjarstjóra í Súðavík, sem hann sendi vegna þess að bærinn varð algjörlega símasambandslaus í óveðri 4. janúar síðastliðinn. Á sama tíma var ófært á milli Súðavíkur og Ísafjarðar. Ómar segir að síminn sé mikilvægt öryggistæki í tilfellum sem þessum þegar hættuástand skapast. Sambandið rofnaði aðfaranótt 4. janúar og kom aftur á um klukkan sex síðdegis. "Á þessum tíma var mikilvægt að vera í sambandi við almannavarnanefnd á Ísafirði. Einu samskiptin sem við gátum haft voru í gegnum talstöð björgunarsveitarinnar í bænum." Ómar sendi Símanum fyrirspurn vegna málsins og hann segir fyrirtækið hafa brugðist vel við. "Þeir fullvissuðu okkur um að þetta yrði skoðað af mikilli alvöru. Þeir ætla að lágmarka líkurnar á því að þetta endurtaki sig og það kemur til greina að skipta farsíma- og talsímakerfunum á milli fleiri stöðva. Þá heldur annað áfram að virka þó hitt bili."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×