Erlent

Júsjenkó sver embættiseið

Viktor Júsjenkó sór embættiseið sem forseti Úkraínu í gær, eftir tveggja mánaða kosningadeilu. Í ræðu sinni sagði hann að innsetning sín í embætti forseta væri sigur frelsis yfir einræði og nú væri þetta fyrrum sovéska ríki í miðju Evrópu. Júsjenkó fór með eiðstafinn í þinginu, Verkhovna Rada, með hönd á stjórnarskrá ríkisins og fornri biblíu. Sumir þingmenn fögnuðu ákaft þegar hann hafði svarið embættiseiðinn, en aðrir stóðu grafkyrrir, án þess að sýna nokkur viðbrögð. Þetta er talið lýsandi fyrir þær deilur sem bíða Júsjenkós sem leiðtoga ríkisins. Eftir innsetninguna hélt Júsjenkó ræðu á Torgi sjálfstæðisins, þar sem stuðningsmenn höfðu mótmælt vikum síðar. Þar var honum ákaft fagnað af stuðningsmönnum sem höfðu beðið komu hans í miklum kulda í marga klukkutíma. Þar sagði hann að Úkraína ætti að ganga í Evrópusambandið. Hann lofaði að endurreisa landið eftir áralanga spillingu, fátækt og ok, meðal annars með því að verja tjáningarfrelsi í landinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×