Erlent

Deilt um dreifingu hjálpargagna

Skærur og þrætur torvelda hjálparstarf í þeim tveimur löndum sem verst urðu úti í flóðbylgjunni í Asíu. Deilt er um dreifingu hjálpargagna og tækifærið jafnvel notað til að klekkja á andstæðingum. Á Srí Lanka magnast spenna milli leiðtoga Tamíltígra og stjórnvalda, þar sem þeir fyrrnefndu fullyrða að hjálpargögn berist ekki í nægum mæli til yfirráðasvæða sinna. Jan Petersen, utanríkisráðherra Noregs, er kominn til Srí Lanka til að reyna að miðla málum, en Norðmenn og aðrar Norðurlandaþjóðir, þar á meðal Íslendingar, koma að friðargæslu í landinu. Petersen segir að viðbrögð við hamförunum muni hafa áhrif á friðarferlið því ef báðir aðilar nái að vinna saman að einurð geti skapast andrúmsloft sem stuðli að friði því hamfarirnar hafi bitnað á öllum. Anton Balasingham, talsmaður Taímiltígra, segir að báðir aðilar, bæði stjórnvöld og Tamíltígrar, þurfi að samþykkja sameiginlega málsmeðferð í því skyni að hjálpin berist beint til fólksins án skriffinsku og annarra hindrana. Í Indónesíu óttast hjálparstarfsmenn átök uppreisnarmanna í Aceh-héraði og stjórnarhersins, en hermenn hafa fellt 120 meinta uppreisnarmenn undanfarinn hálfan mánuð þrátt fyrir óformlegt vopnahlé. Skærurnar torvelda hjálparstarf en 400 þúsund manns eru háð því í Aceh.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×