Erlent

Erlendar sveitir í Írak í 10-15 ár

Erlendar hersveitir verða í Írak í tíu til fimmtán ár, að mati bresks þingmanns í varnarmálanefnd breska þingsins. Engu að síður eru gerðar áætlanir um brotthvarf við fyrsta tækifæri í Washington og Lundúnum. Uppreisnarmenn í Írak kveðast ætla að sleppa átta kínverskum gíslum þeir þeir hafa haldið. Uppreisnarmennirnir sendu frá sér myndbandsupptöku þar sem þeir sögðu gíslunum verða sleppt þar sem kínversk stjórnvöld hefðu við kröfum um að vara þegna sína við ferðalögum til Íraks. Talsmenn kínverskra stjórnvalda segja langt síðan að varað var við ferðum til Íraks. Uppreisnarmennirnir segja að ekkert lausnargjald hafi verið greitt og að líðan mannanna sé góð. Ellefu fórust í sjálfsmorðssprengjuárás á brúðkaupsveislu skammt suður af Bagdad í gærkvöldi. Sjónarvottar segja að sjúkrabíl fylltum sprengiefni hafi verið ekið að tjaldi þar sem veislan fór fram og hann sprengdur í loft upp. Tuttugu og sjö særðust og er sumum þeirra ekki hugað líf. Það voru sjítar sem fögnuðu brúðkaupinu en þeir eru eitt af meginskotmörkum hryðjuverkamanna í Írak sem vilja valda upplausn og ringulreið í aðdraganda kosninganna sem eiga að fara fram eftir tæpa viku. Þó að Bandaríkjamenn og Bretar segi ljóst að hersveitir þeirra verði í Írak uns þarlendar sveitir eru færar um að taka við störfum þeirra greinir breska blaðið Guardian frá því í dag að nú þegar liggi fyrir áætlanir um brotthvarf frá Írak við fyrsta tækifæri. Í Washington, Bagdad og Lundúnum er hermt að áherlsa sé lögð á að eiga slíkar áætlanir kæmi til þess að ný, íröksk ríkisstjórn bæði hersetuveldin að hverfa á brott. Talsmenn breskra stjórnvalda neita því að dagsetningar liggi fyrir og segja sérfræðingar þeirra ljóst að yrði ákvörðun um brotthvarf tekin í dag tæki það í það minnsta allt þetta ár að flytja mannskap og búnað á brott. Sérfræðingar bresku utanríkis- og varnarmálaráðuneytanna meta írakska herinn svo að aðeins fimm þúsund af um 120 þúsund hermönnum séu nægilega vel þjálfaðir til að geta tekist á við starfann. Nefndarmaður í bresku varnarmálanefndinni, sem er nýkominn frá Bagdad, metur ástandið svo að erlendar hersveitir verði í Írak í tíu til fimmtán ár þar sem Írakar sjálfir séu ekki og verði ekki um hríð færir um að takast sjálfir á við ástandið í landinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×