Erlent

Vinna fyrir hjálpargögnum

Fórnarlömb hamfaranna í Asíu eru nú látin vinna fyrir hjálpargögnunum sem dreift er þar sem sérfræðingar hjálparstofnana óttast að öðrum kosti verði hundruð þúsunda háð gjöfum. Neyðarhjálp er nú víða lokið og uppbygging tekin við. Neyðarhjálpar er nú óvíða þörf og uppbyggingarstarf að hefjast. Á Srí Lanka hafa verið kynntar hugmyndir um að byggja umferðarmannvirki og ný byggðalög fjarri þeim svæðum þar sem hættan á flóðbylgju er mest. Á Indónesíu segja hjálparstarfsmenn nauðsynlegt að virkja það fólk sem hefst við í flóttamannabúðum og fá því starfa svo að það koðni ekki niður og verði að eins konar þurfalingum háðum gjöfum hjálparsamtaka. Fólk er því meðal annars látið vinna fyrir matarpökkum og öðru sem samtök dreifa. Allir vilja leggja hönd á plóginn og í dag kom meira að segja læknasveit frá Afganistan. Á ráðstefnu í Japan er unnið að því að hanna forvarnakerfi til að koma í veg fyrir sambærilegar hörmungar en þaðan berast þær fréttir að þrætur hamli starfinu. Fjöldamargar tillögur ku vera uppi á borðinu en valdabarátta er komin upp þar sem allir vilja fá að leiða starfið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×