Erlent

Fórnarlömb hamfaranna þurfa vinnu

Vinna er það sem fórnarlömb hamfaranna í Suðaustur-Asíu þurfa helst á að halda. Annars er hætta á að fólk venjist matargjöfum og að frumkvæði lognist út af. Þetta er mat stjórnenda hjálparstarfs á svæðinu, sem segja uppbyggingarstarf nú taka við af neyðarhjálp. Þyrlur og flugvélar sem dreifa hjálpargögnum voru á jörðinni í morgun og óvenjuleg þögn var í Aceh-héraði þegar forseti Indónesíu leiddi þar bænir. Susilo Judhojoni segir tímabært að hefja uppbyggingu í héraðinu á ný, að deilendur þar taki höndum saman og friður ríki. Talsmenn Sameinuðu þjóðanna eru sammála og segja fyrsta skrefi neyðarhjálpar nú nánast alls staðar lokið og næsta skref taki við. Það miðar að því að koma fólki á ný til vinnu, börnum til skóla og að hefja daglegt líf á ný. Talsmenn hjálparstofnana leggja einmitt mikla áherslu á það og segja annars hætt við að fólk venjist matargjöfum og að lifa á því sem dreift er. Í þessu augnamiði hefur verið komið á vinnuáætlunum þar sem flóttamenn og önnur fórnarlömb flóðbylgjunnar geti unnið sér inn matvæli og önnur gögn. Með þessu er tryggt að frumkvæði lognist ekki út af meðal fólksins. Neyðaraðstoð á Ache-héraði í Indónesíu miðar nú að því að fólk fái öll nauðsynleg næringarefni úr fæðu en ekki bara magafylli af hverju sem er. Nær allir sem voru matarþurfi hafa nú fengið mat en að sögn yfirnæringarfræðings Sameinuðu þjóðanna er óttast að neysla einhæfrar fæðu valdi því að fórnarlömb hamfaranna séu síður fær um að verjast sjúkdómum. Til að mynda geti skortur á A-vítamíni leitt til blindu. Hann segir að í fyrstu hafi verið nóg að dreifa núðlum og hrísgrjónum en nú sé í óða önn verið að dreifa fiski í dós, A-vítamínbættri matarolíu og vítamínríkum kexkökum. Á Srí Lanka er starfið komið nokkru lengra en þar hafa verið gerðar áætlanir um byggingu umferðarmannvirkja og enduruppbyggingu 62 þorpa og verslunarsvæða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×