Erlent

Landslag á Títan líkt því íslenska

Landslag á Títan, fylgitungli Satúrnusar, er um margt líkt því sem er á Íslandi - nema hvað þar er ekkert líf að finna segja vísindamenn. Myndir sem evrópska geimfarið Huygens tók í lendingu á Títan sýna fjölbreytt landslag. Þar eru fjöll, strendur og árfarvegir. Vísindamenn telja að Títan gefi nokkra hugmynd um hvernig jörðin leit út fyrir fjórum milljörðum ára, um það leyti sem þar kviknaði fyrst líf. Ekki er þó talið að nokkurt líf finnist á Títan. Þegar Huygens lenti þar mældist hitastigið -179 gráður á celsíus. Það útilokar allt líf, að minnsta kosti eins og það þekkist á jörðinni. Huygens fann heldur engin merki um vatn. Talið er að um árfarvegina sem voru ljósmyndaðir streymi, eða hafi streymt, metan. Í lofthjúpi Títans er einnig að finna metan og koltvísýrling og er hann eina plánetan í sólkerfinu, fyrir utan jörðina, sem hefur lofthjúp. Títan er stærsta fylgitungl Satúrnusar og það næststærsta í sólkerfinu. Hann er um helmingi stærri en tungl jarðarinnar. Það tók geimfarið Huygens sjö ár að komast til Títans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×