Erlent

Ísraelar ræða við Abbas

Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, aflétti í gær samskiptabanni við Mahmoud Abbas, forseta Palestínu. Í kjölfarið funduðu yfirmenn öryggismála Ísraels og Palestínu um það hvernig hægt væri að sporna við auknu ofbeldi á svæðinu. Sharon bannaði ísraelskum ráðamönnum að hafa samskipti við Abbas eftir sjálfsmorðsárás palestínskra öfgamanna í síðustu viku sem varð sex Ísraelum að bana. Mikil spenna ríkti fyrir botni Miðjarðarhafs í gær. Um miðjan dag heimilaði Sharon hershöfðingjum Ísraelshers að hefja undirbúning innrásar á Gaza-svæðið. Þau áform voru lögð í salt eftir að fregnir bárust af því að Abbas væri að ná samkomulagi við leiðtoga Hamas og Jihad um að hætta árásum og óskaði einnig eftir viðræðum við ísraelsk stjórnvöld um að binda enda á óöldina. Þessi viðleitni Palestínumanna og sú ákvörðun þeirra að senda hundruð lögreglumanna að landamærunum varð til þess að Sharon hætti við undirbúning innrásar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×