Erlent

Ofbeldið færist enn í aukana

Í það minnsta 26 manns létust í fjórum sprengjuárásum sem gerðar voru á einni og hálfri klukkustund í og við Bagdad í gær. Þá létust tveir starfsmenn bresks öryggisfyrirtækis í árás vígamanna og hollenskir hermenn skutu íraskan bílstjóra til bana eftir að hann stöðvaði bifreið sína ekki við vegatálma. Ástralska sendiráðið í Bagdad var skotmark fyrstu sprengjuárásarinnar í gær. Þar lést einn íraskur borgari og margt fólk særðist, þeirra á meðal tveir ástralskir hermenn. Næsta sprengjuárás var mun mannskæðari. Þá sprakk bílsprengja við al-Alahi sjúkrahúsið í Bagdad og létust átján manns, þar af fimm lögreglumenn. Síðar voru gerðar árásir við alþjóðaflugvöllinn í Bagdad og flugvöll sem íraski herinn notar. Bandalag íslamskra fræðimanna, samtök súnnískra klerka, hétu í gær á vígamenn, sem eru að stórum hluta súnní-múslimar, að sleppa gíslum sínum í tilefni af Eid al-Adha trúarhátíðinni sem hefst í vikunni. "Trú okkar leyfir ekki gjörðir sem leiða til morða og auðmýkingar," sagði Omar Raghib, talsmaður bandalagsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×