Erlent

Innrásin í Írak var mistök

Það voru mistök að gera innrás í Írak. Þetta er afstaða rúmlega helmings bandarísku þjóðarinnar samkvæmt nýrri skoðanakönnun Gallup fyrir CNN og USA Today. 52 prósent sögðu það hafa verið mistök að ráðast inn í Írak en 47 prósent sögðu það rétta ákvörðun. Fyrir mánuði töldu 47 prósent að innrásin hefði verið mistök en 52 prósent töldu rétta ákvörðun að ráðast inn í Írak. Nú vilja 24 prósent fjölga í herliðinu í Írak samkvæmt könnuninni. 24 prósent vilja halda óbreyttum liðsstyrk en hátt í helmingur vill kalla allan eða hluta hersins heim frá Írak. 21 prósent vill fækka í herliðinu en fjórði hver kjósandi vill kalla allan herinn heim. Stuðningur við innrásina í Írak var mestur meðal Bandaríkjamanna í mars 2003, fáeinum dögum eftir að hún hófst. Þá töldu 75 prósent rétt að ráðast inn í Írak en 23 prósent sögðu það mistök.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×