Erlent

Setja skorður á ferðafrelsið

Írösk stjórnvöld hyggjast loka landamærunum, setja útgöngubann að næturlagi og takmarka ferðafrelsi innanlands dagana í kringum kosningarnar sem fram fara 30. janúar. Með þessu leitast stjórnvöld við að vernda almenning gegn árásum vígamanna sem reyna að skemma fyrir kosningunum með árásum sínum. Yfirkjörstjórn Íraks tilkynnti í gær að engir fengju að fara um landamæri Íraks og landamæralanda aðrir en pílagrímar sem væru á heimleið úr pílagrímsför í Sádi-Arabíu á kjördag og næsta dag á undan og eftir. Þá var tilkynnt að Írakar fengju ekki að ferðast á milli héraða landsins sömu daga. Vígamenn hafa hert árásir sínar að undanförnu og er ástandið sums staðar svo slæmt að vart þykir óhætt að halda kosningar. Falah Hassan al-Naqib innanríkisráðherra hvatti súnníska trúbræður sína þó til að kjósa og sagði það landráð ef einhverjir hópar sniðgengju kosningarnar. Hann sagði viðbúið að borgarastríð brytist út ef súnní-múslimar sniðgengju kosningarnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×