Erlent

Kosið í Danmörku 8. febrúar

Forsætisráðherra Danmerkur tilkynnir nú í hádeginu að þingkosningar verði haldnar í landinu eftir þrjár vikur, þann 8. febrúar, mörgum mánuðum fyrir lok kjörtímabilsins. Ástæðan er sögð sú að skoðanakannanir séu forsætisráðherranum hagstæðar. Miklar vangaveltur hafa verið um það í dönskum fjölmiðlum að undanförnu hvenær Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra og formaður Venstre-flokksins, tilkynni um kosningar. Danska ríkisútvarpið sagði í morgun að til hafi staðið að tilkynna um kosningarnar í upphafi ársins en því hafi verið frestað vegna frétta af náttúruhamförunum í Asíu. Þar sem þetta hefur legið í loftinu má segja að kosningabarátta sé í raun löngu hafin. Þannig tilkynnti leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Mogens Lykketoft, formaður Sósíaldemókrata, nýja áætlunum um helgina sem ber heitið Made in Denmark og snýst um að skapa 50.000 ný störf á næstunni. Málefni nýbúa eru ofarlega á baugi og hafa stjórn og stjórnarandstaða tekist verulega á varðandi hversu langt á að ganga í reglum og lagasetningum á því sviði. Berlingske Tidende bendir á í dag að opinberir starfsmenn hafi oftar en ekki fylgt stjórnarandstöðunni og sagt reglurnar orðnar of stífar. Einnig er rætt um hvernig börnum innflytjenda reiðir af og nú um helgina birtist könnun með sláandi niðurstöðum um hversu illa þeim gangi að aðlagast dönskum grunnskólum, meðal annars vegna þess að skriftar- og lestarkunnáttu margra er ábótavant. En af hverju kosningar nú? Berlingske Tidende segir í ítarlegri fréttastkýringu í dag að strangt til tekið geti forsætisráðherra beðið fram í nóvember. Ástæðan sé hins vegar sú að Anders Fogh Rasmussen fái vart betra tækifæri til að tryggja sér önnur fjögur ár sem forsætisráðherra. Skoðanakannanir undanfarið hafa verið jákvæðar fyrir Venstre og samkvæmt Gallup-könnun sem gerð var fyrir Berlingske Tidende bætir Venstre við sig tveimur þingsætum. Yrði það niðurstaðan væri líklegt að landinu stjórnaði minnihlutastjórn Venstre og Íhaldsflokksins, sem nyti stuðnings danska þjóðarflokksins og fengi 92 þingsæti á móti 83 þingsætum stjórnarandstöðunnar. Það er ekki dönsku rólegheitunum fyrir að fara í þessu efnum því búið er að ákveða kappræður milli formanna Venstre og Sósíaldemókrata í kvöld kl. 7 á TV2 og klukkutíma síðar hjá danska ríkissjónvarpinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×