Erlent

Sharon skar á tengsl við Abbas

Kringumstæður embættistöku Mahmoud Abbas hefðu varla getað verið erfiðari fyrir þennan nýja forseta palestínsku heimastjórnarinnar. Skömmu áður en Abbas sór embættiseið klipptu Ísraelar á öll tengsl við hann uns hann hefði ráðið niðurlögum palestínskra vígamanna, tugir manna sögðu sig úr kosningastjórn vegna deilna um framkvæmd kosninganna sem hann vann og sjö Palestínumenn féllu fyrir hendi ísraelskra hermanna. Aukin bjartsýni á frið í Mið-Austurlöndum, sem farið var að gæta eftir að ljóst varð Abbas yrði næsti leiðtogi Palestínumanna, er farin að dofna í kjölfar ofbeldis sem hefur kostað níu Palestínumenn og sex ísraelska verkamenn lífið síðustu daga. Þá særðist sjö ára ísraelskur drengur alvarlega, missti annan handlegginn, þegar hann varð fyrir sprengju sem palestínskir vígamenn skutu að ísraelskri landnemabyggð á Gaza í gær. Tíu Palestínumenn særðust í aðgerðum Ísraela í gær, þeirra á meðal fjögur börn, tvö þeirra lífshættulega. Abbas rétti út sáttahönd til Ísraela í ræðu sem hann hélt við embættistökuna. "Við sækjumst eftir gagnkvæmu vopnahléi til að binda enda á þennan vítahring ofbeldis," sagði hann og fordæmdi allt ofbeldi, Ísraela og Palestínumanna. Hann sagði það liggja fyrir Ísraelum og Palestínumönnum að lifa hlið við hlið og deila landsvæði. Abbas sagði Palestínumenn reiðubúna að mæta skuldbindingum sínum samkvæmt vegvísinum til friðar sem kveður á um að herskáar hreyfingar hætti árásum á Ísraela. Hann er þó ekki reiðubúinn að þvinga þær til þess og sjá til þess að þær afvopnist heldur vill hann semja við þær um að þær láti af árásum. 46 meðlimir palestínsku kjörstjórnarinnar sögðu af sér í gær og báru því við að kosningastjórar Abbas hefðu þvingað þá til að breyta framkvæmd forsetakosninganna meðan á þeim stóð. Skotið var á húsið þar sem kjörstjórnin fundaði meðan kosningar stóðu yfir 9. janúar og báru meðlimir kjörstjórnarinnar kennsl á einn byssumannanna sem meðlim palestínsku leyniþjónustunnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×