Erlent

Átti fótum fjör að launa

Johan Svensson, forstjóri Íslenska járnblendifélagsins, átti fótum sínum fjör að launa þegar hann lenti í flóðbylgjunni í Taílandi. Hann segist breyttur maður eftir þá reynslu. Þegar ósköpin dundu yfir voru Johan og fjölskylda hans í svokallaðri paradísarferð á Chicken-eyju sem er skammt frá Phatong á Phuket. Hann segir sjóinn hafa dregist gríðarlega langt frá landi og að konan hans og sambýliskona sonar hans hafi nánast sópast burt með útsoginu en áttað sig á hvað væri að gerast. Sjávarhæðin lækkaði um hálfan annan metra á hálfri mínútu sem er gríðarlega mikið og segist Johan hafa þá áttað sig á að eitthvað mikið væri að. Svo var allt í einu eins og sjórinn lyftist og síðan skall hann á lítili eyju skammt frá ströndinni. „Þá skildi ég að það var einungis eitt að gera og það var að forða sér,“ segir Johan. Hann segir að fólk hafi í örvæntingu reynt að forða sér þegar það hafi séð hvað var í aðsigi. Sænskur jarðfræðingur var með fjölskyldunni í för sem áttaði sig á því að þetta væri ekki eðlilegt fyrirbæri. „Hann sagði þetta afleiðingar gríðarlegs jarðskjálfta í nágrenni Súmötru. Við biðum því eftir að eftirskjálftar riðu yfir,“ segir Johan. Ömurleg sjón blasti við Johanni og fjölskyldu hans þegar þau komust aftur til Phatong eftir erfiða og langa bið. Hann segir þetta einhverja erfiðustu lífsreynslu sem hann hafi upplifað. „Öll þessi eyðilegging sem blasti við, lík liggjandi úti um allt og megn stækja í milum hita. Phatong var rústir einar,“ segir Johan. Johan segir að hann og eiginkona sín reyni nú að vinna sig út úr þessari skelfilegu lífsreynslu og að þau hafi talað mikið um atburðina. Og hann finnur breytingu á sér; Johan kveðst alltaf hafa verið mikill lestrarhestur en nú geti hann ekki einbeitt sér að því. Auk þess er hann orðinn meira þenkjandi og rólegri og það sama gildi um fjölskyldu sína. Þrátt fyrir lífreynsluna segist Johan geta hugsað sér að fara aftur til Taílands en hann myndi þá dveljast á hærri stað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×