Erlent

Vel fylgst með kosningum

Palestínumenn ganga að kjörborðinu í dag til að kjósa eftirmann Jassirs Arafats í embætti forseta. Vel er fylgst með framgangi kosninganna og átta hundruð erlendir kosningaeftirlitsmenn eru á svæðinu. Ýmis ljón eru í veginum. Hamas-samtökin og önnur öfgasamtök Palestínumanna hafa hvatt fólk til að hunsa kosningarnar og Ísraelsstjórn virðist ekki ætla að standa við loforð um að auðvelda Palestínumönnum að kjósa því fréttir berast af því að mörg hundruð manns hafi verið snúið frá kjörstöðum á herteknu svæðunum. Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri - grænna og formaður BSRB, og Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambandsins, eru staddir í Palestínu í boði palestínskra verkalýðshreyfinga. Ögmundur segir að kosningaþátttaka sé mikil og að kosningarnar virðist ætla ganga vel fyrir sig. Það sé áberandi að konur séu meirihluti þeirra sem komið hafa á kjörstað í morgun. Ögmundur segir litla spennu í kosningunum, flestir spái Mahmoud Abbas, leiðtoga PLO, yfirburðasigri og það sé því mest spennandi hvað helsti keppinautur Abbas, Mustafa Barghouti, komi til með að fá í kosningunum. Palestínumenn kusu sér síðast forseta árið 1996. Mjög er horft á framgang og úrslit þessara kosninga sem einhvers konar þáttaskila hjá Palestínumönnum og vonir eru bundnar við að í framhaldinu takist að hleypa lífi í friðarsamningana við Ísraelsstjórn. Ögmundur segir að vissulega séu til þeir Palestínumenn sem segi kosningarnar húmbúkk, landið sé hersetið og því eigi útlagastjórn að ráða þar. Aðrir líti svo á að nú sé verið að skapa grunn að lýðræðislega uppbyggðu samfélagi í Palestínu og nú fái palestínska stjórnin lýðræðislegt aðhald.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×