Erlent

Enn sagðir týndir á hamfaraslóðum

Ellefu Íslendingar eru enn sagðir týndir á hamfarasvæðunum við Indlandshaf í öllum fréttaskeytum Reuters-fréttastofunnar þrátt fyrir að tæp vika sé síðan vitað var um ferðir flestra þeirra. Pétur Ásgeirsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu, sem hefur haldið utan um upplýsingar um Íslendingana, segist ekki vita hvernig á þessu standi. Að því er hann best viti sé enginn miðlægur gagnagrunnur til um týnda útlendinga á hamfarasvæðunum og íslensk yfirvöld hafi því aðeins gefið taílenskum stjórnvöldum upplýsingar um týndu Íslendingana og hafi fylgst náið með listum sem þarlend yfirvöld hafi haldið utan um. Síðasti Íslendingurinn, sem ekki var vitað um, kom fram í vikunni þegar hann hafði samband við ræðismann Íslands í Bangkok í Taílandi. Þessa tölur um ellefu týnda Íslendinga hafa hins vegar birst í öðrum fjölmiðlum um allan heim, meðal annars á fréttavef BBC. Pétur segist ætla að setja sig í samband við Reuters-fréttastofuna á morgun til að leiðrétta þennan misskilning. Þetta vekur óneitanlega þá spurningu hvort eitthvað sé að marka upplýsingar um þá útlendinga sem saknað er en í fréttaskeytum Reuters er fullyrt að sjö þúsund og fimm hundruð útlendingar séu annaðhvort látnir, taldir af eða saknað á hamfarasvæðunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×