Erlent

Kosningar í skugga víga

Tveir Palestínumenn og einn Ísraeli létust í þremur aðskildum atvikum á Vesturbakkanum og Gasaströndinni fyrr í dag. Þetta varpar skugga á kosningar Palestínumanna en þeir velja eftirmann Jassirs Arafats nú um helgina. Ísraelskir hermenn skutu Palestínumann á Gasasvæðinu, en talsmenn hersins segja að hann hafi reynt að skjóta sprengjuflaug á landnemabyggð gyðinga. Hermennirnir skutu í átt að vopnabúnaði Palestínumannsins með þeim afleiðingum að hann sprakk og Palestínumaðurinn lést. Þá skutu palestínskir uppreisnarmenn á bíl nálægt eftirlitsstöð og við það lést einn Ísraeli og þrír særðust. Al-Aqsa herdeildirnar, sem heyra undir Fatah-hreyfinguna, hafa lýst tilræðinu á hendur sér. Fyrr í dag skutu ísraelskir hermenn annan Palestínumann á Gasasvæðinu, sem þeir sögðu að hefði reynt að komast inn á svæði sem herinn hefði girt af. Þessir atburðir varpa skugga á forsetakosningar Palestínumanna, en í þeim er Mahmoud Abbas, sem fer fyrir Fatah-hreyfingunni eftir fráfall Arafats, talinn sigurstranglegur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×