Erlent

Fangar enn pyntaðir í Írak

Saddam Hussein og samverkamenn hans hafa verið hraktir frá völdum en íraskar öryggissveitir pynta fanga sína ennþá. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu bandarísku mannréttindasamtakanna Human Rights Watch, sem hafa skoðað stöðu mannréttinda í Írak. "Íraska bráðabirgðastjórnin undir forystu Ayad Allawi forsætisráðherra ... virðist taka virkan þátt, eða vera í það minnsta samábyrg, í þessum grófu brotum á grundvallarmannréttindum," segir í skýrslu samtakanna. Þar er einnig bent á að hvorki bandarísk né bresk stjórnvöld hafi sett sig upp á móti því að íraskar öryggissveitir pynti fanga. "Írösku þjóðinni var lofað einhverju betra en þessu," sagði Sara Leah Whitson, svæðisstjóri samtakanna í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku, í viðtali við AP-fréttastofuna. Hún sagðist skilja þann vanda sem öryggissveitirnar stæðu frammi fyrir vegna hryðjuverkaárása í Írak. "Við fordæmum grimmd uppreisnarmanna. En alþjóðalög liggja ljós fyrir: engin ríkisstjórn getur réttlætt pyntingar með vísan til öryggismála."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×