Erlent

Fórnarlambanna minnst í Madríd

Tár féllu þegar fórnarlamba hryðjuverkaárásanna í Madríd var minnst í dag, ári eftir að saklausir lestarfarþegar á leið til vinnu urðu fórnarlömb hryðjuverkamanna al-Qaida.  Mörg hundruð klukkur hringdu bjöllum sínum stundvíslega klukkan 7.37 í morgun um allan Spán til að minnast 191 fórnarlambs hryðjuverkanna í Madríd. Fyrir ári síðan sprengdu hryðjuverkamenn al-Qaida tíu bakpoka, fyllta dýnamíti, í fullum farþegalestum skammt frá Atocha-lestarstöðinni í miðborg Madrídar. Í dag var kveikt á kertum til að minnast atburðanna sem höfðu gríðarlegar pólitískar afleiðingar á Spáni. Þögnin ríkti í stórborgum og smábæjum. Tuttugu og tveir eru í haldi lögreglu og bíða réttarhalda vegna aðildar að hryðjuverkunum en margir tilræðismannanna eru taldir hafa farist þegar lögregla gerði áhlaup á íbúð nokkrum vikum eftir ódæðin. Fimmtíu og tveir til viðbótar eru ekki lengur í haldi en eru engu að síður grunaðir um aðild. Búist er við því að réttarhöld vegna málsins hefjist í fyrsta lagi í lok þessa árs.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×