Erlent

Friðarhorfur vænkast

Friðarhorfurnar í Miðausturlöndum vænkast. Svo virðist sem Mahmoud Abbas hafi sannfært skæruliða um vopnahlé og Ísraelsmenn virðast hafa trú á Abbas. Abbas hefur undanfarna daga setið við samningaborðið með fulltrúum öfga- og skæruliðasamtaka, meðal annars Íslamska Jihad og Hamas. Tilgangurinn var að sannfæra þá um að leggja niður vopn um hríð í von um að það yrði friðarviðræðum við Ísraelsmenn til framdráttar. Á föstudag sendi Abbas öryggissveitir út á götur Gasaborgar til að halda aftur af skæruliðum og eru Ísraelsmenn ánægðir með frumkvæðið. Þeir stálu þó glæpnum í morgun þegar varnarmálaráðherra Ísraels greindi frá því að Abbas hefði náð samningum við skæruliðana. Þeir kannast ekki við neitt. Nafez Azam, talsmaður Íslamska Jihad, segir að að samtökin hafi hitt Abbas bæði fyrir og eftir trúarhátíð múslíma, sem var á föstudag, og niðurstaða funda hafi almennt verið jákvæð. Rædd hafi verið ýmis vandamál en þau væru mörg og mjög stór. Ekki hafi hins vegar verið samið um vopnahlé heldur samþykkt að halda fundum áfram. Síðdegis var haft eftir Abbas í palestínska sjónvarpinu að samkomulag væri í burðarliðnum. Annað merki breytts andrúmslofts í Miðausturlöndum var ríkisstjórnarfundur í dag. Ariel Sharon kallaði stjórn sína saman í bær sem hefur verið vinsælt skotmark palestínskra hryðjuverkamanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×