Innlent

365 heitir það heillin

Íslenska útvarpsfélagið og Frétt hafa verið sameinuð undir nýju nafni, 365, sem skiptist í 365 - ljósvakamiðla og 365 - prentmiðla. Ritstjórnir fjölmiðla halda fullu sjálfstæði en rekstur, framleiðsla og sölu- og markaðsmál verða sameiginleg nema hjá PoppTíví og FM957. Samhliða breytingunum verður stofnað framleiðslufyrirtækið Hvítar myndir sem mun taka yfir alla framleiðslu og starfa sjálfstætt. Fjármálastjórnun 365 verður hjá Og Vodafone. Þjónustuver 365 verður hluti af þjónustuveri Og vodafone. "Þarna verður öflugasta þjónustuver á Íslandi og þannig byrjað að starfa strax um næstu mánaðamót," segir Pálmi Guðmundsson markaðsstjóri. Stefnt er að því að sameinað félag verði til húsa að Skaftahlíð 24. Gunnar Smári Egilsson verður framkvæmdastjóri, Hermann Hermannsson aðstoðarframkvæmdastjóri og Kristján Grétarsson yfirmaður framleiðslunnar. Gunnar Smári segir að nafnið eigi að endurspegla þjónustu fyrirtækisins allan sólarhringinn allan ársins hring.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×