Sport

Þróttarar fóru illa með ÍBV

Þróttarar fóru illa með baráttulausa Eyjamenn í botnslagnum á Laugardalsvelli í gær. Kristinn Hafliðason kom Þrótti yfir með glæsilegu marki beint úr aukaspyrnu eftir aðeins 5 mínútna leik og mörkin voru orðin þrjú þegar flautað var til hálfleiks. Síðari hálfleikurinn var mjög dapur og hvorugt lið var að skapa sér hættuleg færi. Undir lokin sóttu Þróttarar aftur í sig veðrið og bættu við fjórða markinu eftir darraðardans í vítateig Eyjamanna. Eyjamenn mættu með rauðu varabúningana sína sem þóttu of líkir Þróttarabúningnum og fengu því lánaðar gamlar landsliðstreyjur sem reyndust þeim ekki vel því liðið átti skelfilegan dag. ÍBV sýndi reyndar smá lífsmark undir lokin en það kom allt of seint og liðið situr í botnsætinu þegar þriðjungur af mótinu er búinn. „Mínir menn börðust vel í þessum og unnu vel fyrir þessum góða sigri. Við höfum byrjað þetta mót illa þótt við höfum verið að spila ágætlega. Eftir nokkur töp í röð missa menn sjálfstraustið og þá getur verið erfitt að ná sér upp úr því. Við spiluðum vel í dag og vonandi verður framhald á því,“ sagði Ásgeir Elíasson eftir fyrsta sigurleik Þróttara í Landsbankadeildinni í sumar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×