Viðskipti erlent

Rússneska mafían fjármagni útrás?

Er það rússneska mafían sem fjármagnar útrás íslenskra kaupahéðna? Því er velt upp í hinu virta, breska dagblaði Guardian í dag. Árangur sumra Íslendinga í samkeppni við mafíuna þykir undraverður. Sögusagnir um kaup Íslendinga á bresku keðjunni Marks og Spencer verða Guardian að umfjöllunarefni í dag. Þar segir raunar að þó að Baugur sé talinn líklegastur til að hafa áhuga á fyrirtækinu sé rætt um að þrír íslenskir fjárfestar skoði keðjuna sem man fífil sinn fegurri. Blaðamaður Guardian, Ian Griffiths, segir kaupgleði Íslendinganna valda vangaveltum um stoðir þessa íslenska kraftaverks. Ungir, íslenskir jakkalakkar hafi gjörbreytt ímynd landsins, sem sé ekki lengur litið á sem einangrað fiskimannasamfélag heldur bækisstöð athafnamanna með ítök um allan heim. Að sama skapi gangi þrálátar sögusagnir um að það séu fjármunir rússnesku mafíunnar sem Íslendingarnir séu að fjárfesta með þó að þær sögusagnir hafi aldrei að nokkru leyti fengist staðfestar. Saga Björgólfsfeðganna þykir þó áhugaverð þar sem þeim hafi tekist hið ómögulega. Þeir hafi opnað átöppunarverksmiðju í Rússlandi og selt Pepsi hana með hagnaði sem þeir hafi notað til að fjárfesta í bruggverksmiðju. Þar með hafi þeir verið komnir í óskageira rússnesku mafíunnar. Á sama tíma, segir í Guardian, var yfirmaður brugghúss í Pétursborg skotinn til bana í eldhúsinu sínu, annar fórst í kúlnahríð sem beint var að einkabifreið hans og eitt af stærri brugghúsunum brann til grunna. Bravo-brugghús Björgólfanna hafi hins vegar blómstrað undir stjórn manna sem sögðust sjálfir vera hálfgerðir einfeldingar og varð að lokum eitt stærsta brugghús Rússlands. Þegar Heineken keypti Bravo fyrir 400 milljónir dollara árið 2002 óx ekkert brugghús með jafnmiklum hraða. Heineken sagði það álitlega fjárfestingu þar sem mafíuspillingin hefði ekki náð þangað inn. Blaðamaður Guardian kemst ekki að neinni niðurstöðu um íslensku víkingana, sem hann kallar svo, en umfjöllunin gefur væntanlega nokkra hugmynd um umræðuna á breskum fjármálamarkaði.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×