Erlent

Skattayfirvöld hætti ofsóknum

MYND/AP
Rússar ákveða sjálfir hvernig lýðræði þróast í landinu, sagði Vladímír Pútín í ávarpi til þjóðarinnar í gær. Hann skipaði einnig skattayfirvöldum að hætta ofsóknum á hendur stórfyrirtækjum. Það vakti athygli að Pútín skipaði skattayfirvöldum að hætta að herja á stórfyrirtæki í ávarpi sínu til þjóðarinnar í gær. Hingað til hefur verið litið svo á að herferðir skattayfirvalda væru ekki síst undan rifjum Pútíns runnar og hefur verið bent á olíurisann Yukos því til sönnunar. Stjórnendur þess fyrirtækis segja meginástæðu skattarannsóknar vera þá að þeir hafi blandað sér í stjórnmál og verið þar andstæðingar Pútíns. Herferðir gegn rússneskum auðmönnum eru sagðar hafa valdið því að erlendir fjárfestar þora ekki að leggja fjármuni í fyrirtæki og uppbyggingu í Rússlandi og það hentar Pútín ekki heldur. Því lýsti hann þeirri skoðun sinni að Rússar ættu nú að hætta að senda peningana sína til útlanda til að komast hjá því að greiða skatt, þeir þyrftu ekki að óttast að þurfa að borga meira en þrettán prósenta flatan skatt. Pútín ræddi einnig þróun lýðræðis í Rússlandi og svaraði þannig meðal annars gagnrýni Condoleezzu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Hún gagnrýndi nýlega þróunina í Rússlandi en Pútín þykir í vaxandi mæli minna á valdamikla ráðamenn Sovétríkjanna fyrr á dögum. Rússar ákveða sjálfir hvernig lýðræði þróast í landinu, sagði hann í gær, og að það myndi verða innan ramma laganna. Átök þjóðernishópa, trúarhópa eða annarra yrði ekki til þess að hraða framvindunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×