Erlent

Dómurinn sagður farsakenndur

Hæstiréttur Spánar dæmdi í gær átján menn í fangelsi fyrir aðild að hryðjuverkaárásunum í Bandaríkjunum 11. september 2001. Arabíska sjónvarpsstöðin Al-Jazeera hefur áfrýjað dómi yfir einum sakborninganna en hann vann sem fréttamaður fyrir stöðina. Réttarhöldin sem fram fóru í Madríd eru þau umfangsmestu sem fram hafa farið í Evrópu yfir grunuðum hryðjuverkamönnum en sakborningarnir eru jafnframt þeir fyrstu sem dæmdir eru sekir fyrir að hafa átt þátt í hryðjuverkaárásunum 11. september. Þyngsta dóminn hlaut Sýrlendingurinn Imad Yarkas, einnig þekktur sem Abu Dahdah, en hann var dæmdur í 27 ára fangelsi fyrir samsæri og að vera í forsvari fyrir spænska sellu al-Kaída. Yarkas var ákærður fyrir að hafa komið á fundi al-Kaída liða í Tarragona á Spáni í júlí 2001 þar sem dagsetning árásanna var endanlega ákveðin, en fundinn sótti meðal annarra Mohammed Atta, forsprakki árásarmannanna 11. september. Saksóknarar vildu láta dæma Yakas í 74.377 ára fangelsi, 25 ár fyrir hvert fórnarlambanna 2.973, en dómararnir töldu ekki nægar sannanir til að dæma hann fyrir morð. Lögmenn Yarkas telja tilgangslaust að áfrýja dómnum þar sem um skrípaleik og ofsóknir séu að ræða. Sautján aðrir voru dæmdir í 6-11 ára fangelsi. Þar á meðal er fréttamaður arabísku sjónvarpsstöðvarinnar Al-Jazeera, Taysir Alluni, en hann var fundinn sekur um að hafa átt í samstarfi við al-Kaída. Alluni hefur rétt eins og hinir sakborningarnir ávallt haldið fram sakleysi sínu en hann tók viðtal við Osama bin Laden í Afganistan nokkrum vikum eftir að árásirnar voru gerðar 11. september. Sjónvarpsstöðin hefur þegar ákveðið að áfrýja dómnum en framkvæmdastjóri hennar sagði í viðtali í gær að hann væri afar óréttlátur og væri fordæmalaus árás á blaðamenn sem væru að sinna sínu starfi. Sex þeirra sem voru ákærðir voru dæmdir sýknir saka. Á meðal þeirra var Ghasoub al-Abrash Ghalyoun. Honum var gefið að sök að hafa tekið nákvæmar myndir af tvíburaturnunum í New York árið 1997 og komið myndunum til al-Kaída en dómarar töldu ekkert benda til þess.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×