Erlent

Einn særðist í stórskotaliðsárás

Stórskotalið Ísraelshers skýtur á Gazasvæðið.
Stórskotalið Ísraelshers skýtur á Gazasvæðið. MYND/AP

Palestínskur vígamaður særðist þegar ísraelskir hermenn skutu úr fallbyssum á nyrsta hluta Gaza, skömmu eftir að ísraelsk stjórnvöld lýstu svæðið bannsvæði til að sporna gegn flugskeytaárásum palestínskra vígamanna.

Ísraelsk stjórnvöld vöruðu Palestínumenn við með flugmiðum í dag að hver sá sem væri á ferli nærri yfirgefnum byggðum landtökumanna nyrst á Gazasvæðinu eftir klukkan fjögur í dag ætti á hættu að vera skotinn. Ísraelsstjórn hefur skilgreint nyrsta hluta Gaza sem einskismannsland og vill þannig reyna að koma í veg fyrir eldflaugaárásir Palestínumanna á Ísrael.

Fáeinum mínútum fyrir fjögur skutu palestínskir vígamenn tveimur flugskeytum á skotmörk í Ísrael. Ísraelar svöruðu fyrir sig skömmu síðar með því að skjóta úr fallbyssum á einskismannslandið. Einn Palestínumaður særðist í stórskotaliðsárás Ísraela en hann var í hópi vígamanna sem reyndu að skjóta eldflaugum að Ísrael.

Avital Leibowich majór, talsmaður Ísraelshers, sagði í viðtalið við vef ísraelska dagblaðsins Haaretz að herinn hafa aukið viðbúnað sinn við landamæri Gaza sem svar við flugskeytaárásum Palestínumanna. Hann sagði ekki hægt að láta ástandið viðgangast og leggja þar með líf ísraelskra borgara í hættu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×