Innlent

Risaborarnir í vandræðum

Risaborarnir þrír við Kárahnjúka eru nú ýmist stopp eða í hægagangi vegna vatnsleka og erfiðra jarðlaga. Þrátt fyrir afar þröngan tímaramma segja Landsvirkjunarmenn þó ekkert benda til annars en að virkjunin verði tilbúin á tilsettum tíma. Það á að bora samtals 75 kílómetra af jarðgöngum vegna Kárahnjúkavirkjunar, þar af er risaborunum ætlað að bora 50 kílómetra. Þeim hefur fram til þessa miðað vel, búnir að bora fimmtán kílómetra, en nú hefur hægt á borverkinu. Einn borinn er stopp meðan verið er að skapa rými svo hann geti beygt en hinir tveir eru lentir í erfiðu bergi. Sigurður Arnalds, upplýsingafulltrúi Kárahnjúkavirkjunar, segir að einn boranna sé að fara í gegnum millilög og þá þurfi að styrkja bergið með stálboga sem sé gríðarlega tímafrekt. Þá er þriðji borinn í vatnsríku móbergi. Sigurður segir þann bor hafa lent í vandræðum vegna innrennslis í berginu og þá þurfi að bora á undan bornum og þétta bergið. Þetta gangi en þó hægt rétt á meðan þetta vari. Menn voni að hann komist yfir erfiðasta hjallann mjög fljótlega. Tafir við stíflugerðina hafa einnig valdið áhyggjum. Sigurður segir að menn hafi haft gríðarlegar áhyggjur í haust af stíflunni í gljúfrinu. Það hafi hins vegar gengið vel að steypa upp margumræddan vegg og Landsvirkjun telji að komist verði upp úr gljúfrinu í vor og eftir það verði tiltölulega einfalt að ljúka stíflunni. Vonir standi til að menn verði komnir ágætlega á áætlun þar í sumar. Menn hafi því ekki miklar áhyggjur af stíflunni lengur. Kárahnjúkavirkjun á að hefja raforkuframleiðslu eftir aðeins tvö ár þannig að ljóst er að tímarammin er afar þröngur. Sigurður segir að ramminn hafi alltaf verið þröngur en það sé ekkert í dag sem bendi til annars en að virkjunin verði tilbúin á tilsettum tíma.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×