Erlent

Bush snupraði Sharon

Snuprur en ekki stuðningur var það sem Ariel Sharon fékk á fundi með Bush Bandaríkjaforseta í gær. Bush lagði hart að Sharon að fylgja friðarvegvísinum og leggja bann við landnámi á svæðum Palestínumanna. Það var búist við því að Bush gerði athugasemdir við landnám gyðinga á svæðum Palestínumanna en að það yrði með jafn opinberum hætti og raun bar vitni kom nokkuð á óvart. Bush sagðist hafa sagt Sharon að hann vonaðist til að Ísraelar gripu ekki til ráðstafana í andstöðu við skyldur þeirra samkvæmt friðarvegvísinum enda stefndu þær lokaviðræðunum í hættu. Því bæri Ísraelum að leggja niður óheimilar varðstöðvar og efna skyldur sínar samkvæmt vegvísinum um landnemabyggðir á Vesturbakkanum. Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, sagði að hvað varðaði óheimilar varðstöðvar vildi hann ítreka að Ísrael væri ríki sem stjórnaðist af lögum. Hann myndi því efna loforð sín um að fjarlægja óheimilar varðstöðvar. Ísrael myndi einnig standa við skuldbindingar sínar varðandi landnemabyggðir samkvæmt friðarvegvísinum. Sharon er hins vegar á því að landnámið á Vesturbakkanum sé í lagi. Landnemabyggðirnar séu hluti Ísraelsríkis. Afstaða landnemanna sjálfra er á hreinu. David Yerusahlmi landnemi segir að enginn hafi tekið land sem hann hafi ekki átt tilkall til. Stríð brjótist út og tapist og land sé unnið. Slíkt gerist um heim allan. Mannkynssagan sýni að ríki skili ekki hernumdum löndum, einkum þegar engin raunveruleg trygging um öryggi sé fyrir hendi. Hann spyr hvaða ríkisstjórn myndi hætta lífi þegna sinna á grunni loforða Palestínumanna og svarar því til að það myndu hvorki Bandaríkjamenn né Evrópubúar gera og því skyldu þá gyðingar gera það.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×