Innlent

Verður einn daginn satt og rétt

Gísli Marteinn Baldursson, segir ekkert óheiðarlegt hafa legið að baki þegar hann sagðist hafa lokið BA- gráðu í stjórnmálafræði eins og kemur fram í Samtíðarmönnum. Gísli Marteinn, sem sækist eftir að verða borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins, hefur ekki lokið BA próf í stjórnmálafræði, eins og fram kemur í bókinni Samtíðarmenn og greint var frá í fréttum Stöðvar 2 í gær. Fréttastofan náði tali af Gísla Marteini fyrir hádegisfréttir þar sem hann sagði að honum hefði fundist leiðinlegt að geta ekki svarað fyrir sig í kvöldfréttum í gærkvöldi. Hann sagði einnig að það hefði næstum komið þannig út að hann hefði verið að hylma yfir eitthvað eða jafnvel fara með ósanndindi. Hann sagði að því færi fjarri að svo væri vegna þess að þegar bókin var í vinnslu var hann búinn að gera hátíðlega áætlun og gera samning við sína prófessora í Háskólanum um það hvernig hann ætlaði að ljúka sínu námi. En þegar það var allt klappað og klárt þá komu upp nýjar aðstæður, m.a. þær að honum var boðið sæti á lista Sjálfstæðismanna og starf í sjónvarpinu. Hann sagði bæði verkefnin hafa verið spennandi og hann hefði ekki viljað sleppa þeim og farið í þau af fullum krafti og því ýtt prófinu á undan sér. Hann sér ekki eftir ákvörðuninni. Í bókinni Samtíðarmenn, eru æviágrip fjölmargra þekktra manna og segir Gísli Marteinn að það sem í bókinni standi, muni einn daginn verða satt og rétt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×