Viðskipti innlent

Aðkomu Ólafs hvergi leynt

Samstarfsmenn Ólafs Ólafssonar, aðaleiganda Kers, vísa á bug ásökunum Páls Þórs Magnússonar, framkvæmdastjóra Sunds, um óheilbrigða viðskiptahætti Ólafs í tengslum við fyrrum meðeigendur sína í Keri. Páll sagði í samtali við Fréttablaðið að Ólafur hefði ætlað að sölsa undir sig Olíufélagið Essó. Hjörleifur Jakobsson, forstjóri Essó, segir þessa staðhæfingu alranga. Hjörleifur lýsti áhuga á að kaupa Essó og segist hafa rætt við Ólaf um fjárhagslega aðkomu að málinu til að brúa bil í skuldsetningunni. "Ólafur sagðist vera tilbúinn að skoða það, en vildi engu svara fyrr en hann hefði rætt við meðeigendur sína í Keri," segir Hjörleifur. Hann segir Ólaf hafa komið hreint fram í málinum, en Jóni Kristjánssyni, aðaleiganda Sunds, hafi snúist hugur og frestað öllum viðræðum um sölu. Hjörleifur segir fráleitt að halda því fram að Ólafur hafi verið að reyna að selja sjálfum sér félagið, og samstarfsaðlilum hafi verið fullkunnugt um alla þætti málsins. "Mér finnst því ódrengilega vegið að Ólafi." Jakob Sigurðsson, forstjóri SÍF, segir aðkomu Ólafs að sölu á Iceland Seafood til Sjóvíkur einnig hafa verið þannig að öllum hafi verið fullkunnugt um stöðu Ólafs af málinu. Hann segir Ólaf hafa beðist undan því að taka þátt í afgreiðslu sölunnar vegna fjárhagslegra tengsla sinna við Sund og Jón Kristjánsson. Þetta komi skýrt fram í fundargerðarbók SÍF. "Í framhaldi af þessum fundi hófust samningaviðræður við Sjóvík og tókust samningar sem lagðir voru fyrir stjórnarfund SÍF. Ólafur, Jón og Guðmundur Hjaltason, forstjóri Kers, viku allir af fundi við afgreiðslu málsins." Jakob segir furðu sæta að reynt sé að véfengja söluna því hún hafi verið einstaklega hagstæð fyrir SÍF. Guðmundur Hjaltason, forstjóri Kers, segir að með því að þyrla upp moldviðri sé Páll Þór að beina athyglinni frá gjörðum sínum í stjórn Festingar. "Staðreyndin er sú að fulltrúar tæplega 20 prósenta hluthafa í stjórn Festingar misnotuðu stöðu sína og seldu framkvæmdastjóra félagsins og vini annars stjórnarmannsins til margra ára óútgefið hlutafé félagsins á undirverði til að ná meirhluta," segir Guðmundur. Hann segir að þetta hafi verið gert þrátt fyrir að andstaða eigenda 80 prósenta hlutar hafi legið fyrir. Hann segir framgönguna siðlausa og að Landsbankinn reyni að snúa hlutum á hvolf. "Þeir reyndu fjandsamlega yfirtöku á Keri og telja sig nú vera fórnarlamb."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×