Erlent

Hátt í tuttugu þúsund létust

Nú er talið að hátt í tuttugu þúsund manns hafi týnt lífi í gríðarsterkum jarðskjálfta sem reið yfir norðurhluta Pakistans, Afganistans og Indlands í gærmorgun. Skjálftinn var 7,6 á Richter og hefur sterkari skjálfti ekki mælst á þessu svæði í meira en öld. Verst er ástandið í pakistanska hluta Kasmírhéraðs, þar sem heilu þorpin jöfnuðust við jörðu. Framanaf sagði talsmaður pakistanska hersins sem stýrir björgunaraðgerðum að líklega væru fórnarlömbin allt að tvö þúsund, en sú tala hefur nær tífaldast á nokkrum klukkustundum. Bandaríkjamenn, Bretar, Ástralir, Kínverjar og Japanar hafa þegar lagt fram fé og hjálpargögn og margar þjóðir hafa boðið afnot af herþyrlum og öðrum búnaði. Svissnesk stjórnvöld eru tilbúin með flugvél til að fljúga neyðarteymi á vegum Sameinuðu þjóðanna til Pakistans og tyrkneski Rauði hálfmáninn er þegar búinn að senda tvær vélar með hjúkrunarlið og hjálpargögn. Meira að segja Indland, sem lengi hefur deilt við Pakistan um Kasmírhérað, hefur boðið fram aðstoð sína. Alþjóða björgunarsveit Slysavarnarfélagsins Landsbjargar bauð fram krafta sína þegar í gærmorgun, en í tilkynningu frá Landsbjörgu segir að stjórnvöld í Pakistan hafi ákveðið að þiggja hjálp frá þeim þjóðum, sem hafi bein stjórnmálatengsl við landið. Af þessum ástæðum muni ekki verða þörf fyrir aðstoð alþjóðasveitarinnar. Áfram verður þó fylgst með aðgerðum í gegnum Sameinuðu þjóðirnar og ef forsendur breytast, verður staðan endurmetin í samvinnu við Utanríkisráðuneytið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×