Innlent

Vilja að hæfi dómsmálaráðherra verði metið

MYND/Valli

Verjendur í Baugsmálinu settu fram kröfu fyrir stundu að mat færi fram á hæfi dómsmálaráðherra í málinu. Fyrirtaka var í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur á tíunda tímanum en taka á fyrir þau átta ákæruatriði sem eftir standa í Baugsmálinu. Fyrirtakan nú er sú fyrsta frá því Hæstiréttur ákvað að vísa 32 af 40 ákæruliðum á hendur forsvarsmönnum Baugs og endurskoðendum frá dómi í haust. Verjendur spurðu hvers vegna Jón Gerald Sullenberger væri ekki ákærður í málinu og kröfðust auk þess að fá afhend tölvugögn. Heimildir fréttastofu herma að það séu tölvugögn í eigu Jóns Geralds. Þá lagði Jón H.B. Snorrason, yfirmaður efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra, fram matsbeiðni sem ekki liggja fyrir nánari uppkýsingar um. Aðalmeðferð í málinu hefst næstkomandi miðvikudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×